Tag Archives: skinka

Uppskriftin sem ég hef lofað svo oft hér inn er loksins komin í sinni bestu útfærslu og var reyndar birt fyrst á mbl.is í nýjum pistli sem heitir Matarást og þegar ég var beðin um að gefa upp uppskrfit sem Elli væri með mesta matarást af var ég ekki lengi að hugsa og vissi að hann mundi segja „Beikonpastað“ þegar ég spurði hann 🙂

Myndir: Vilhelm Gunnarson

„Ég hef prófað nokkrar útfærslur af þessum rétt, stundum nota ég beikon, kjúkling og skinku og stundum bara beikon og skinku. Það er líka mjög gott að setja pepperoni ef þið fílið það og nota þá pepperoníost í sósuna.“

En hér kemur svona eðalútgáfan sem okkur finnst best:

Tortellini með karamelluðu beikoni og rjómaostasósu

Uppskrift:

  • 2 bakkar af tortellini með skinkufyllingu. Finnst best að nota þessi fersku sem eru geymd í kæli í búðunum.
  • 1 pakki beikon.
  • 2 kjúklingabringur (má sleppa).
  • ½-1 pakki skinka.
  • 1 bakki sveppir.
  • 2 kryddostar með beikoni og papriku frá Örnu.
  • ½ lítri af rjóma. Ég nota Örnu rjóma.
  • 1 tsk kjötkraftur.
  • Dass af Sukrin gold púðursykri eða venjulegum sykri.

 

Aðferð:

  • Hitið ofninn í 200 gráður.
  • Tortellini sett í pott og soðið eftir leiðbeiningum.
  • Beikoni raðað á ofnplötu með smjörpappír og púðursykri stráð yfir. Það er líka hægt að nota sýróp eða bæði. Bakað þar til það verður stökkt eða eftir ykkar smekk.
  • Skerið sveppi niður og steikið á pönnu.
  • Skerið kjúklingabringur í smáa bita. Kryddaðar með salt og pipar eða öðru góðu kjúklingakryddi og steiktar á pönnu.
  • Skerið skinku niður í smáa bita.
  • Skerið ostinn í smáa bita og setjið í pott ásamt rjómanum og hitið saman. Bætið 1 tsk kjötkrafti saman við.
  • Blandið svo öllu saman og ef þið eruð fyrir grænmeti með þá er gott að setja litla kirsjuberjatómata eða rauða papriku með og krydda svo smá með basilíku.

Gott að bera fram með hvítlauksbrauði og nóg af parmesanost.

Getið séð alla greinina af mbl hér: Matarást á mbl.