Var að prófa um daginn að gera hollari uppskrift af piparkökum en það var uppskrift sem ég fann á erlendri síðu sem notaðist við Sukrin í uppskriftina og nota ég þann sykur mikið í mínar uppskriftir, en því miður þá fannst mér þær alls ekki nógu góðar, alltof bragðlausar og líka ekki nógu stökkar. En ég prófaði svo þessa hér sem er bara inná sukrin.com og getur maður valið Ísland þar á forsíðunni og þá koma upp fullt af sniðugum uppskriftum með Sukrin í og var þessi svo mikið betri, en í henni er líka smá síróp og notaði ég síróp frá Sukrin líka, rjómi, og pipar sem ég var ekki með í hinum. En það má skipta hveitinu út og nota möndlumjöl eða spelt í staðin.
Eitt af mínu uppáhalds í jólaundirbúningnum er að fá góðan ost ofan á piparköku toppað með sultu, mæli með að þið prófið :)[do_widget „Featured Image“]
- 150 g smjör
- 100 ml létt síróp
- 200 ml (180 g) Sukrin
- 100 ml rjómi
- 500 ml (300 g) hveiti
- 100 ml (60g) FiberFin (gefur meira af trefjum og lægri sykurstuðul, má skipta út fyrir hveiti)
- 1/2 tsk negull (duft)
- 1/2 tsk engifer
- 1/2 tsk pipar
- 2 tsk kanill
- 1 tsk lyftiduft
- 100 ml hveiti til að nota þegar deigið er flatt út
Leiðbeiningar
Blandið sírópi, Sukrin og smjöri saman í potti. Hitið þar til Sukrinið er bráðnað. Takið pottinn af hellunni og kælið blönduna örlítið. Hrærið rjómanum út í. Blandið hveiti, FiberFin, kryddi og lyftidufti við og hrærið vel. Breiðið yfir deigið og látið standa við stofuhita þar til þú ert tilbúinn að gera piparkökurnar.
Hnoðið deigið og fletjið út þannig að það sé um 3 mm á þykkt. Mótið kökurnar.
Bakið á ofnplötu með bökunarpappír í 8-10 mínútur við 175°C. Kælið kökurnar á grind.
Þegar piparkökurnar eru nýbakaðar eru þær aðeins mýkri en venjulegar piparkökur. Ef þær eru geymdar í kökuboxi í nokkra daga þá verða þær jafn stökkar og góðar og þær venjulegu.
Innihaldsefni í 100 gr
Orka: 276 kcal • prótein: 4,7 • kolvetni: 26,2 • fita: 16,9 • trefjar: 5,4